Stígum út úr kassanum: Verum sú hvetjandi breyting sem samfélagið þarf

5 góð skref að stórum markmiðum á umbreytingatímum.


Á undanförnum vikum hef ég verið svo lánsöm að taka þátt í fjórum stórviðburðum í viðskiptalífinu á Íslandi.

Ég tók að mér að skipuleggja ráðstefnu SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu sem markaðs og kynningastjóri samtakanna, en ráðstefnan fór fram 16. mars s.l., undir heitinu ‘Rýmum fyrir nýjum svörum’, ég sat á Menntadegi atvinnulífsins í febrúar, tók þátt á Iðnþingi og sat í síðustu viku á vinnustofu Framtíðarseturs þar sem unnið var í “Framtíðar Sviðsmyndum” í umhverfismálum fyrir Ísland til ársins 2040.

Á ráðstefnu SVÞ var fókusinn settur á þrjú kjarnamálefni; sjálfbærni, stafræna þróun og framtíðarhæfni á vinnumarkaði, þá var undirritaður tímamótasamningur milli SVÞ, VR og LÍV um metnaðarfull markmið sem snúa að endurmenntun og þjálfun starfsfólks í greininni á umbreytingatímum.  

Á þessum viðburðum, þ.e. Iðnþingi, Menntadegi atvinnulífsins og ráðstefnu SVÞ var mikið rætt um framtíðarhæfni mannauðsins. Mikilvægi þess að hlaupa hraðar, koma með nýjar lausnir og síðast en ekki síst það að ekki bara að hugsa út fyrir boxið, heldur setja upp skýran ásetning og aðgerðaáætlun.

Stjórnendur fyrirtækja, stórum sem smáum, standa frammi fyrir stórum umbreytingum. Þessi málefni skipta sköpun fyrir samkeppnishæfni fyrirtækja, ekki bara hér innanlands heldur á alþjóðamarkaði.

Sem leiðtogamarkþjálfi, fyrirlesari og ein stofnenda vitundarvakningarinnar og Út úr boxinu aðferðafræðinnar höfum við í ráðgjafaráði vitundarvakningarinnar mikið verið að skoða hvað er að stoppa eða tefja stjórnendur fyrirtækja í að stíga skrefið til sjálfbærnis, stafrænnar þróunar og einlæglega virkja mannauðinn sinn til að ná settu marki.

Það kemur þér örugglega ekki á óvart að heyra að það erum við sjálf sem erum að hefta framganginn. Stjórnendur, millistjórnendur, leiðtogar, sem og starfsmaður á plani.

Rýmið þitt og hlutirnir í rýminu þínu!

Það er kannski ekkert skrítið að við þurfum að líta inn á við og í eigin barm, þegar að 95% af öllum okkar daglegu aðgerðum eru nákvæmlega þau sömu og við gerðum í gær, fyrradag og daginn þar áður. Það er því lítið sem ekkert rými til að breytast, þegar við erum föst í viðjum vanans.



Þrátt fyrir alla þekkinguna okkar, allar mastersgráðurnar sem við höfum nælt okkur í og allar hvetjandi setningarnar eins og frá Peter Dunkan sem sagði: "Hættulegasta hluturinn á óvissutíma er ekki óvissan sjálf, heldur að haga sér með reglum sem eru eins og í gær." þá eru allt of margir fastir í ‘svona-höfum-við-alltaf-gert-þetta-kassanum’ 


 

Hvað er til ráða?

Fimm hlutir sem skipta máli.

1. Horfast í augu við sjálfan sig! 

Spyrja sig reglulega:

  • Hvað er ég að setja í rýmið mitt?

  • Hvaða venjur, siði, hefðir eru að fylla upp í þessa 24 klukkustundir sem ég hef á hverjum degi?

  • Hvað þarf ég að að hætta að gera til að geta gert það sem mig dreymir um að vera? 

Hugrekki til að horfa í eigin barm. Ertu að gleyma þér að horfa á skemmtileg ‘Reels’ á Instagram eða Facebook? Hvernig talar þú um sjálfan þig, eða við sjálfan þig? Er hugur þinn fullur af efasemdum um sjálfan þig? Eða finnst þér fyrirtækið þitt vera svo lítið að þú þurfir ekkert að vera að breyta einhverju hjá þér? Ertu einlæglega að hlusta á fólkið í kringum þig með opnum huga, eða ertu að taka eftir því að hugurinn þinn er meira að bíða eftir því að koma þinni skoðun að og þú heyrir lítið sem ekkert sem annað fólk hefur að segja?  

2. Hæfni til breytinga. 

Í samtölum við stjórnendur innan SVÞ heyri ég þá benda á að framtíðarhæfileikar hjá starfsfólki sé ekki síst að starfsfólk séu góð í samskiptum. Eiginleikinn að vera fær um að aðlagast og vera sveigjanlegur í tímum stórra umbóta og óvissu.   

Eins og ég nefndi hér að ofan, að detta ofaní ‘svona-hef-ég-alltaf-gert-það-kassann’ er það auðveldasta í heimi. Að falla aftur í gamalt hugsunar- og hegðunarmynstur, er það sem getur heft frekari framþróun og hindrað okkur í því að verða þeir jákvæðu umbrotakraftar sem samfélagið þarf á að halda á tímum breytinga. Ef að kassinn þinn er ekki að gefa þér tækifæri á því að efla þig í samskiptum eða læra leiðir til að aðlagast nýjum tímum, þá gerist lítið.  

Við þurfum, þess vegna, að vera tilbúin til að stíga út úr okkar þægindarömmum og samþykkja nýjar áskoranir og tækifæri með fersku sjónarhorni og opnum huga. Aðeins þá getum við raunverulega breytt veruleikann og hjálpað til við að móta betri framtíð fyrir okkur sjálf og samferðafólk okkar.

Ertu Kría eða fiðrildi? 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-iðnaðar og nýsköpunarráðherra var með reglulega hvetjandi innlegg á Iðnþingi um mismuninn á atorku, þolhæfi og ásetningi Kríunnar annarsvegar og Fiðrildisins hinsvegar. Sama Krían fer frá Íslandi og flýgur til Afríku og til baka að ári liðnu. Það sama gerir fiðrildið, nema fiðrildið gerir það með kynslóðaskiptum. Kynslóðir fiðrilda ná að fara til Afríku og aftur til baka. Ég hugsaði um kassana okkar í þessari flottu myndlíkingu Áslaugar Örnu og hugsaði með mér að við flest erum svo vön því að vera í ‘fiðrilda-kassanum’ - draga þá ályktun að þau þurfi lítið að gera, bíða bara eftir að næsta kynslóð taki keflið áfram.

Ég er hins vegar sannfærð eftir ráðstefnur undanfarinna vikna að við sem þjóð þurfum að stíga meira inn í ‘Kríu-hugarfarið’, byggja upp þol og áræðni til að takast á við áskoranirnar sem við stöndum frammi fyrir. 

3. Hæfni til að gera mistök, og læra af þeim.

Eitt af þeirri samfélagslegri skilyrðingu, enn einn kassinn, sem ég sé marga stjórnendur vera fangar í, er það viðhorf að það sé bein tenging við að gera mistök og að missa stjórn, eða jafnvel að missa vinnuna.

Afleiðingin af þessu viðhorfi er að við sjáum fólk (stjórnendur sem aðra) reyna að hylma yfir mistökin í stað þess að viðurkenna þau, nýta tækifærið til að ræða þau opinskátt og búa þannig til umhverfi sem er lærdómsmiðað. 

Það er nefnilega ákveðin hæfni að kunna að gera mistök og læra af þeim. Á þeim umbreytingatímum sem við lifum í dag þurfum við að gefa okkur rými til að gera mistök, og læra af þeim. Setja okkur skýran ásetning hvað við ætlum að gera öðruvísi næst. 

4. Meðvitund um okkar eigin ómeðvituðu hlutdrægni.

Þrátt fyrir alla sjálfbærni og tækni þurfum við mannauð til að láta fyrirtækin okkar dafna. Til að nýta okkur til fullnystu allan þann mannauð sem er á Íslandi þurfum við bæði fólk sem fæddist á Íslandi sem og fólk sem tilheyrir hópi nýrra íslendinga. Til þess að geta gert það almennilega þurfum við að vera meðvitaðri um okkar eigin hlutdrægni, okkar ómeðvituðu hlutdrægni.  

Já, það er mannlegt að velja það sem við þekkjum. Við drögum einfaldlega þær ályktanir að það sé öruggast að fá fólk sem lítur út eins og við. Á sama tíma er það líka blindur blettur og stöðvar tækifæri og vöxt til framtíðar að telja sér trú um að fólk af öðrum uppruna, kyni eða kynþætti geti ekki sinnt starfi eða verkefnum.  

Eins og ég nefndi hér að ofan þá er 95% af þínum daglegu venjum, siðum og hefðum þær sömu og í gær. Þetta kalla ég prógrammið þitt!  

Sjálfs-meðvitund skiptir höfuðmáli í litlu sem stóru hlutunum. Eins og tryggingafélagið sem skildi ekkert í því afhverju engin kona sótti um starf í bílatryggingasölu. Það var ekki fyrr en þau fóru að kafa ofaní ‘Starfslýsinga kassann’ sáu þá að þau voru föst í eldri starfslýsingu sem sagði að bílatryggingasölumaðurinn þyrfti að vera Bifvélavirki að mennt. Það kom á daginn að til að selja bílatryggingar þarf ekki að hafa slíkt próf uppá arminn. Við þessa tiltekt opnaðist rými til að breyta starfslýsingu og fá fjölbreyttari flóru af góðu sölufólki inní fyrirtækið. 

Það er mikilvægt að vera meðvitaður um að ályktanir sem byggjast á gömlum hefðum, siðum, viðhorfum þurfa ekkert endilega að vera það besta fyrir fyrirtækið þitt.

5. Þú ein/n getur uppfært prógrammið þitt! Óháð kyni, kynþætti, trúarbrögðum eða bakgrunni. 

Vilji til að tileinka sér opna hugsun, stíga inn í þá vegferð til að verða betri, brattari og bjartari sem leiðtoginn á umbreytingatímum er það sem þarf.  

Gefðu þér tækifæri á að opna og skoða kassann sem þú hefur einhverra hluta vegna fest þig inn í, njóttu þín í að taka út úr honum gamlar venjur og hefðir sem halda aftur af þér og draga úr þér orkuna sem þú þarft til að láta sjálfan þig og fyrirtækið þitt dafna.  


Þú þarft ekki að vinna þessa mikilvægu sjálfvinnu ein/n

Sem stjórnandi ertu fyrirmynd og með því að efla þessa þætti hjá þér, gefur þú teyminu þínu hvatningu til athafna. Þú þarft ekki að vinna þessa mikilvægu vinnu ein/n. Sem betur fer eru til frábærir markþjálfar á Íslandi í dag sem geta hjálpað þér til að verða þessi breyting sem þú vilt verða. 

Staðreyndin er sú, að hvort sem þú vilt vera í sama kassanum, stækka kassann eða hoppa út úr honum, þá er valið þitt.  

Mundu, valið þitt kemur til með að vera það orðspor sem þú skilur eftir í huga fólksins í kringum þig. 


Um greinarhöfund:
Rúna Magnúsdóttir, út-úr-boxinu leiðtogamarkþjálfi og fyrirlesari. Markaðs og kynningastjóri SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu.
Hún er höfundur bókanna: Branding Your X-Factor og The Story of Boxes, The Good, The Bad and The Ugly, og meðstofnandi No More Boxes vitundarvakningarinnar og aðferðafræði.

Rúna vinnur með stjórnendum, leiðtogum, frumkvöðlum sem stjórnmálafólki að því að verða betri, brattari og bjartari sem sitt leiðandi ljós.

Smelltu hér til að hafa samband við Rúnu.


Þú finnur Rúnu hér á samfélagsmiðlum.

Previous
Previous

4 leiðir til að vinna með þína ómeðvituðu hlutdrægni

Next
Next

Are Your Social Conditionings Turning You into a Handbag?